Lífshlaup laxins

Við getum sagt að lífshlaup laxins hefjist að vori eða sumri, þegar fullorðnir laxar ganga í árnar þar sem þeir klöktust sem seiði. Hrygnan finnur sér hagstæða möl, grefur holu og hrygnir. Það gerist að hausti. Hængur hefur áður verið valinn og sér hann um frjóvgun hrognana. Snemma að vori klekjast hrognin og dyljast þá kviðpokaseiði í mölini. En þegar næringin úr kviðpokanum er tæmd þurfa seiðin að leita sér ætis og fara þá á stjá. Yfir sumartíman breytast þessi kríli í smáseiði og njóta góðs af felulit, því að hætturnar eru margar. Þar sem árvatnið á Norðausturhorninu er kaldara en víðast hvar annars staðar á landinu þurfa seiðin 3 til 5 ár til að ná sjógönguþroska. Þá eru þau 10 til 12 cm löng. Þau breytast þá í gönguseiði sem að ganga til sjávar og leita á hafbeitarslóðir. Á þessum tíma verða seiðin silfruð og líffræðilegir eiginleikar breytast til að þau geti aðlagast saltvatninu. Gönguseiðin ganga til sjávar seint á vorin, en í köldum árum getur það tafist eitthvað fram á sumar. 

Vöxturinn í hafinu er hraður. Á einum vetri getur 50 gramma seiði orðið 2 kg eða meira. Um það bil helmingur seiðana ganga þá aftur í ána til að hrygna, en hin verða eftir í hafinu og stækka og stækka. Sjaldgæft er þó að seiði séu að éta í hafinu yfir þrjá vetur. 

Laxar sem ganga til hrygningar éta ekki í ánum. Að hrygningu lokinni mjaka þeir sér til hafs eftir langan vetur, en þar sem þeir eru horaðir og uppgefnir þá eru þeir í meiri hættu vegna afræningja og sjúkdóma. Á þessum tímapunkti deyja þeir afar margir. 

Lífshlaup laxins