Gróðursetning við Selá sumarið 2020.

Tíu þúsund plöntur gróðursettar í sumar

Í sumar hefur verið plantað rétt um 10 þúsund plöntum í tengslum við endurheimt gróðurfars á umráðasvæði Six Rivers verkefnisins á Norðausturlandi. Gróðursetningin er hluti af umfangsmiklu uppbyggingar- og verndar- og rannsóknarstarfi Six Rivers til stuðnings og verndar íslenska laxastofninum.

Verkefnið kallar á bæði mannafla og umtalsverða fjárfestingu, en langtímamarkmið þess er að fæðuúrval laxfiska í ám svæðisins aukist eftir því sem gróðurfar eflist.

Verkefnið hófst síðasta ári undir handleiðslu Else Möller skógfræðings. Þá fór fram tilraunagróðursetning og áætlun gerð um gróðursetningu næstu ára. Að sögn Helga Þorsteinssonar, leiðsögumaður og bónda á Ytra Nýpi, sem tekið hefur við sem verkefnastjóri starfsins er unnið samkvæmt uppleggi Else, en þó tekið mið af aðstæðum hverju sinni, svo sem aðgengi að plöntum.

„Þegar við fórum af stað rákum við okkur á að lítið var til af plöntum í landinu, en fundum þó það sem til þurfti hingað og þangað um landið og erum búin að planta rétt um 10 þúsund plöntum,“ segir Helgi. Meira en helmingur af því sem plantað hefur verið í sumar er birki, en einnig hefur verið settur niður ilmreynir, gulvíðir og loðvíðir, auk þess sem tilraunir hafa verið gerðar með elri.

„Við höfum verið fimm að störfum við gróðursetninguna í sumar,“ segir Helgi, en auk hans var ráðinn flokksstjóri og svo þrjú ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára. Hann segir áfram lagða áherslu á plöntun innlendra tegunda. „Og þótt elrir sé strangt til tekið ekki innlend tegund, þá er hann náskyldur birki, auk þess sem hér hafa fundist steingerðar leifar af elri frá því fyrir ísöld.“

Hluti hópsins sem unnið hefur að gróðursetningu í sumar. Helgi Þorsteinsson í forgrunni.

Endurheimt gróðurfars og trjárækt er mikilvægt starf sem eykur jarðgæði á svæðum gróðureyðingar og auðgar lífríki svæðisins. Vonir standa til þess að með því megi bæta til langframa fæðisöflun unglaxa í ánum. Árangur tilraunarinnar kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár og jafnvel áratugi og endurspeglar það langtímahugsun Six Rivers verkefnisins í heild. Nálgunin, að vernda og endurheimta gæði vistkerfanna, byggir einnig á því að bændur rækti áfram og nýti með hefðbundnum hætti land á jörðum svæðisins og auðgi gæði búsvæðanna meðfram ánum.

„Þótt staða laxastofna hér virðist við fyrstu sýn góð í samanburði við önnur lönd verður ekki af því dregin sú ályktun að hér sé ekki þörf aðgerða til stuðnings laxinum, sem á heimsvísu er flokkaður sem tegund í hættu. Aðgerðir sem hér hefur verið gripið til hafa hjálpað til við að halda í horfinu því sífellt færri fiskar snúa aftur í árnar úr hafi. Hrognagröftur, laxastigar og aðrar aðgerðir hafa stutt við stofnstærð ánna hjá okkur, en þróunin kallar á aðgerðir. Og ef ekki er gripið til þeirra nú þegar þá gæti það orðið of seint,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs.