Spurt og svarað


Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi er áframhald yfir 60 ára sögu verndunar og uppbyggingar

Um verndarstarfið og rannsóknirnar:

Q: Hvaða gagn er að ætluðum rannsóknum?

A: Þær skipta mjög miklu máli bæði á Íslandi og alþjóðavísu. Aukin þekking á lífsferli Norður-Atlantshafslaxins skiptir máli fyrir íslensku laxastofnana og árnar á Norðausturlandi, og fyrir stofn Norður-Atlantshafslaxins í heild.

Q: Hvernig rannsóknir eru þetta og til hversu langs tíma?

A: Gert er ráð fyrir rannsóknum fram til 2022 eða 2023. Skipulag þeirra annast viðkomandi háskólar, en þær miða að því að afla upplýsinga um stærð núverandi laxastofna, með genakortlagningu og hátæknimerkingum. Markmiðið er að leiða í ljós tengslin á milli umhverfis og hegðunar laxa í ánum og endurkomu þeirra í árnar úr hafi. Með því að kortleggja hegðun laxa innan vatnasvæðisins og endurkomu þeirra reynum við að finna flöskuhálsa í ferlinu og þá um leið hvað hægt er að gera til að fækka þeim.

Q: Ef genauppbygging laxfiska er ólík eftir því úr hvaða á þeir koma, hvað gagnast þá að vernda og rannsaka einstakar ár á Norðausturlandi?

A: Allt eru þetta nú samt laxar og hegðun þeirra sambærileg.  Vonir standa því til að rannsóknirnar skili niðurstöðum sem gagnist laxastofninum hvarvetna.

Q: Hvað má gera ráð fyrir að fiski fjölgi mikið í ánum á Norðausturlandi þegar búið er að byggja nýja laxastiga og koma fyrir hrognum á nýjum svæðum?

A: Um það er erfitt að spá. Takist okkur að opna ný hrygningarsvæði og lengja göngu laxins um jafnvel tugi kílómetra á ákveðnum svæðum þá verður árangurinn eftir því.

Q: Hvað kosta þessar rannsóknir?

A: Áætlaður kostnaður vegna rannsóknanna er 80 milljónir króna fram til 2022/2023.

Q: Í hverju felst sá kostnaður?

A: Kostnaðurinn felst aðallega í tækjakaupum og launum doktorsnemanna tveggja sem koma annars vegar frá Imperial College í Lundúnum og hins vegar frá Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands.

Q: Hvað setur Jim Ratcliffe mikla fjármuni í þessar rannsóknir og uppbyggingarstarfið á Norðausturlandi?

A: Áætlað er að fjárfesting Sir Jims Ratcliffe vegna rannsóknanna, uppbyggingar og verndunar villta laxins hlaupi á hundruðum milljóna króna.

Q: Hvað kosta aðrir hlutar verndarstarfsins, svo sem stigar, hrognagröftur, og þar fram eftir götum?

A: Yfir 500 milljónir króna á þessu sama tímabili, að því er ráð er fyrir gert.

Q: Hvað á að rannsaka laxinn lengi og hvað er markmiðið?

A: Gert er ráð fyrir að rannsóknir doktorsnemana á vegum Imperial College og Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands standi til 2022/2023. Markmiðið er að auka þekkingu á afkomu laxins allan lífsferil hans og þar með skilning á því hvernig vernda megi stofninn og efla og bestu leiðir að því marki.

Q: Hvað verður gert við rannsóknirnar?

A: Niðurstöður rannsóknanna verða birtar sem vísindagreinar á vegum háskólanna. Þá verður þeim einnig deilt með íslenskum stjórnvöldum og viðeigandi sveitarfélögum þegar þær liggja fyrir.

Q: Hvernig er fylgst með laxinum, bæði í ánum og í sjónum?

A: Við fylgjumst með laxinum í ánum og notum hátæknimerkingum og talningu í hliðum.

Q: Er verið að vernda árnar til að bæta þær sem veiðiár ríkra stangveiðimanna sem sækja Ísland heim, eða er raunverulegur ávinningur fyrir stofn Norður-Atlantshafslaxins?

A: Aukin veiði er undirstaða þess að verkefnið verði á endanum sjálfbært því allar tekjur af ánum renna til uppbyggingar- og verndarstarfsins. Takist vel til þá eykst veiði og umsvif vegna veiðimanna aukast á svæðinu, samfélaginu öllu til hagsbóta. Endanlegt markmið er alltaf vernd laxastofnsins og vert að nefna að samkvæmt veiðireglu ánna er öllum veiddum laxi sleppt.          .

Q: Hvenær má búast við niðurstöðum úr rannsóknunum sem ráðgerðar eru á Norðausturlandi?

A: Á árunum 2022 eða 2023.

Q: Verða starfsmenn tengdir rannsóknunum langdvölum á Norðausturlandi?

A: Já, á Vopnafirði er aðstaða fyrir doktorsnema til lengri eða skemmri tíma, framganga rannsóknanna ræður því hvað viðvera verður mikil.

Q: Skilar þetta verndar- og uppbyggingarstarf einhverju fyrir nærsamfélagið?

A: Um er að ræða töluvert mikla fjárfestingu sem skilar sér í auknum umsviðum í þessum sveitarfélögum á tímabilinu, störfum vegna framkvæmda og þjónustu við fólk sem að þessu kemur. Þá er langtímaávinningur í uppgræðslustarfi og eflingu ánna sem skilar sér í fjölgun veiðimanna og annarra gesta, svo sem ferðamanna á svæðið sem jafnframt þýðir aukin umsvif á svæðinu og þjónustu við þann hóp. Ekki kæmi á óvart þótt framkvæmdirnar stuðluðu að fjölgun íbúa, þótt erfitt sé að spá fyrir um langtímaáhrif með þeim hætti.

Q:Styður Jim Ratcliffe við skógrækt á Vopnafirði og ef svo, liggja þá fyrir einhverjir samningar um hvernig þeim málum verður háttað?

A: Vinna við endurheimt gróðurfars og trjárækt fer fram í samstarfi við skógfræðingi Vopnafjarðarhrepps og starfsfólk bæjarins. Á árinu 2019 runnu 300.000 krónur til plöntunar.

Um fjárfestingar Sir Jim Ratcliffes á Íslandi:

Q: Hvað á James Ratcliffe margar jarðir á Íslandi?

A: Um þetta hefur verið nokkuð fjallað í fjölmiðlum út frá þeim opinberu gögnum sem aðgengilegar eru. Við höfum ekki tjáð okkur um þetta. Staðreyndin er að kaup á jörðum hafa bara farið fram í þeim tilgangi að tryggja uppbyggingu og verndarstarf tengt Norðuratlantshafslaxinum í ánum á Norðausturlandi.

Q: Af hverju er þetta ekki bara upplýst?

A: Eignarhald jarða getur verið flókið, bæði vegna skilmála um trúnað í vissum tilvikum og svo vegna blandaðs eignarhalds í öðrum. Við höfum því kosið að tjá okkur ekki um umfang fasteignakaupanna heldur láta nægja þá skráningu sem finnst í opinberum gögnum.

Q: Er Jim Ratcliffe að reyna að fela hversu margar jarðir hann hefur keypt, svo sem með flóknu eignarhaldi í ólíkum félögum?

A: Nei, alls ekki. Um er að ræða kaup sem átt hafa sér stað yfir lengra tímabil og aðstæður hverju sinni ráðið því skipulagi kaupanna. Við erum að fara yfir þessi mál með það fyrir augum að einfalda skráningu og auka gagnsæi.

Q: Hvað tryggir að Sir Jim Ratcliffe vendi ekki kvæði sínu í kross og hefji allt aðra starfsemi á jörðum sínum?

A: Líklega orð hans sem heiðursmanns. Fyrir utan náttúrlega regluverk laga á Íslandi og skipulagsvald sveitarfélaga sem setur öllum landeigendum ramma, sama hvaðan þeir koma. En hann hefur lýst fyrirætlunum sínum og hafið fjárfestingu samkvæmt þeim. Það er ólíklegt að fjárfestir með skýra sýn myndi láta það fara til spillis.

Q: Hefur Jim Ratcliffe uppi áform um að virkja einhverjar af þeim ám sem renna um lönd hans?

A: Nei, hann hefur engar slíkar áætlanir. Aðkoma hans takmarkast af því markmiði að vernda villta laxa á Norðausturlandi.

Q: Seldi Jim Ratcliffe virkjanarétt í Þverá?

A: Nei. Þessu hefur verið haldið fram en um er að ræða ákveðinn misskilning. Um er að ræða samninga sem landeigendur höfðu gert áður en Jim Ratcliffe kom að eignarhaldi árinnar.

Q: Af hverju stöðvaði Ratcliffe ekki þessar ráðagerðir um virkjun í Þverá?

A: Landeigendurnir höfðu lagt kapp á leigu umræddra virkjanaréttinda og við vildum ekki standa í vegi fyrir þeim í þeim efnum enda ekkert sem bendir til að möguleg virkjun hafi skaðleg áhrif á laxinn sem gengur ekki upp í Þverá. Við gerðum hins vegar ákveðna fyrirvara um samþykki okkar þannig að gætt yrði fyllstu varúðar gagnvart náttúrinni og umhverfið fái að njóta vafans. Þá kröfðumst við þess að framkvæmdin færi í umhverfismat þótt ekki sé gerð krafa um það í lögum um virkjanir af þessari stærð.

Q: Er Jim Ratcliffe mótfallin því að þrengt verði að jarðakaupum útlendinga með lagabreytingu?

A: Jim Ratcliffe fylgist af áhuga með umræðunum sem fram fara um kaup útlendinga að fasteignum á Íslandi og fer eftir þeim lögum og reglum sem gilda hverju sinni. Einu breytingarnar sem hann kynni að vera á móti væru þær sem grafið gætu undan því verndarstarfi sem hann stendur fyrir á Norðausturlandi.

Q: Hvað er landbúnaður stundaður á mörgum jörðum sem Jim Ratcliffe hefur keypt?

A: Á öllum þeim þar sem landbúnaður var á annað borð stundaður fyrir. Enn sem komið er hefur enginn bóndi flutt burt af jörð sem Jim Ratcliffe hefur keypt.

Q: Af hverju vilja bændur halda búskap áfram á jörð sem þeir eru búnir að selja?

A: Þarna getur vel farið saman hagur kaupanda og seljanda. Í sumum tilvikum hefur verið létt á rekstri sem var þungur vegna skuldabyrði og jafnvel hagkvæmara fyrir viðkomandi bónda að halda áfram rekstri sínum samkvæmt leigusamningi við Jim Ratcliffe. Virkur landbúnaður hjálpar svo til við að viðhalda landgæðum í umhverfi ánna.

Q: Gerir Jim Ratcliffe einhverjar sérstakar kröfur til bænda sem halda áfram búskap á jörð sem hann hefur keypt?

A: Bara að viðhalda hefðbundnum landbúnaði og jarðgæðum nærri ánum með umhverfisvænum hætti og styðja þannig með búsetu sinni við nærsamfélagið.