Alþjóðlegt málþing í Reykjavík

Fréttatilkynning 23/01/20

Á ALÞJÓÐLEGRI RÁÐSTEFNU UM LEIÐIR TIL AÐ BJARGA ATLANTSHAFSLAXINUM KOMA SAMAN LEIÐANDI SÉRFRÆÐINGAR MARGRA LANDA TIL AÐ FÁST VIÐ HNIGNUN STOFNSINS.

 • Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi boðar til ráðstefnunnar. Vaxandi vísbendingar eru um hrun stofns Atlantshafslaxins og telst tegundin nú í útrýmingarhættu.
 • Sérfræðingar frá fjölda landa hittast í Reykjavík í dag, 23. janúar 2020, til að ræða framtíð Atlantshafslaxins. Á Íslandi nýtur stofn villtra laxa sjaldgæfs skjóls.
 • Reynslan og aukin þekking sem fæst með verndar- og uppbyggingarstarfinu sem unnið er á Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi nýtist við verndarstarf til stuðnings laxinum á heimsvísu.
 • „Stofni Atlantshafslaxins hefur hnignað svo að hann er nú fjórðungur þess sem var á árunum upp úr 1970. Flestar tegundir sem séð hefðu slíka hnignun yrðu flokkaðar sem í útrýmingarhættu. Ísland og starf Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi getur stutt við verndarstarfið sem unnið er í öðrum löndum. Vera kann að fyrir laxinn vanti klukkuna bara fimm mínútur í miðnætti. Þessi ráðstefna, sú fyrsta af mörgum sem við hyggjumst standa að, færir saman leiðandi sérfræðinga í viðleitni til að leita lausna sem styðja við og bjarga tegundinni,“ segir Dr Peter Williams, tæknistjóri INEOS Group.

_____________________________________________________________________________

Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi, sem komið var á fót af Sir Jim Ratcliffe, stofnanda og stjórnarformanni INEOS, stendur að alþjóðlegri ráðstefnu um framtíð Atlantshafslaxins.

Á ráðstefnunni, sem fer fram í Reykjavík í dag, fimmtudaginn 23. janúar, koma saman sérfræðingar frá Íslandi, Noregi, Bretlandi, Írlandi og Kanada til að ræða ógnvænlega hnignun stofns Norður-Atlantshafslaxins, sem er bara um fjórðungur af því sem hann var á árunum upp úr 1970. Þessi tímamótaráðstefna leiðir saman sérfræðinga til að ræða leiðir til að bjarga laxinum af brún útrýmingar.

Meðal þessara sérfræðinga eru Guy Woodward frá Imperial College London, Dr Guðni Guðbergsson deildarstjóri sjávar- og ferskvatnsrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun, Dr Colin Bull frá The Missing Salmon Alliance og Dr Nikolai Friberg frá Niva – norsku ferskvatnsrannsóknarmiðstöðin. Auk þeirra verða á ráðstefnunni prófessor Phil McGinnity, frá Environmental Research Institute við Háskólann í Cork á Írlandi, Dr Rasmus Lauridsen, yfirmaður fiskveiðirannsókna hjá Game & Wildlife Trust í Bretlandi og Dr James Rosindell, sérfræðingur í megindlegri líffræði við Imperial College.

Sir Jim Ratcliffe, stofnandi og stjórnarformaður INEOS, hefur um árabil verið öflugur bakhjarl verndarstarfs í þágu laxins á Íslandi. Hann hafði forgöngu um stofnun Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi til þess að styðja við tegundina með markvissum hætti.

Áherslur verndarsvæðisins eru einstakar vegna áherslu á að varðveita land og vistkerfi ánna á Norðausturlandi og viðhald uppeldisstöðva Norður-Atlantshafslaxins á svæðinu. Verkefnið er metnaðarfullt að umfangi með umtalsverðri fjárfestingu tengdri rannsóknum, uppbyggingu og vernd villta laxastofnsins, þar sem markmiðið er að verja eitt síðasta vígi Atlantshafslaxins.

Vísindamenn sem koma að aðgerðum Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi vonast til þess að svipta hulunni af því af hverju Atlantshafslaxinn er að hverfa. Fyrir valinu urðu óspilltar ár Norðausturlands en þar hafa færri þættir áhrif á vistkerfi ánna þar sem laxinn þrífst. Þekking sem á uppruna sinn í þessum vistkerfum á Íslandi er einhver haldbærasta leiðins sem stendur til boða til að greina ástæður og móta aðgerðir til að snúa við hnignun laxastofnsins. Árangur á Íslandi getur búið til vitneskju sem nýst getur um heim allan.

Aðgerðir Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi byggja á þremur þáttum, árvissum grefti hrogna úr löxum úr ánum sjálfum, byggingu laxastiga til að opna laxinum ný uppvaxtarsvæði, og uppgræðslu og skógrækt til að auðga fæðuúrval fisksins í ánum. Allar miða þessar leiðir að því að styðja við vöxt stofnanna í ánum og bæta lífslíkur þeirra. Vinnan er unnin í nánu samstarfi við bændur og nærsamfélagið.

Þetta mikilvæga verndar og rannsóknarstarf er fjármagnað beint af Sir Jim Ratcliffe auk þess sem allur hagnaður af starfsemi Strengs og af eignaumsýslu á Íslandi rennur aftur til verndarstarfsins. Markmiðið er að til verði sjálfbært framtak sem viðhalda muni verndarstarfinu um langa framtíð.

Þessi ráðstefna hjálpar til við að vekja athygli á þeirri staðreynd að Atlantshafslaxinn er nú í útrýmingarhættu. Með því að leiða saman sérfræðinga hvaðanæva að úr heiminum vonum við að finna megi nýjar lausnir til þess að snúa þróuninni við. Starfið sem unnið er hjá Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi styður við afkomu laxins þar, en meira þarf til að koma. Við vonum að ríkisstjórnir leggi okkur líka lið í þessari viðleitni.“

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs

Upplýsingar um fyrirlesara ráðstefnunnar má nálgast HÉR.

Smellið hér fyrir frekari upplýsingar um ráðstefnuna og dagskrá dagsins.

Um Imperial College London

Imperial College London (að fullu heiti: Imperial College of Science, Technology and Medicine) er opinber rannsóknarháskóli með aðsetur í Lundúnum.

2019–2020 var skólinn í níunda sæti á alþjóðlegum lista Times Higher Education World University Rankings, í níunda sæti QS World University Rankings, áttunda sæti á lista Reuters, The World’s Most Innovative Universities, og í 24. sæti á lista Academic Ranking of World Universities.

Í hópi nemenda, starfsfólks og rannsakenda eru 14 nóbelsverðlaunahafar, 3 Fields Medal orðuhafar, 1 Turing Award verðlaunahafi, 74 meðlimir Royal Society, 87 meðlimir Royal Academy of Engineering, og 85 meðlimir í Academy of Medical Sciences.

Um Hafrannsóknastofnun

Rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna (Hafrannsóknastofnun) er opinber stofnun sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti Íslands.

Hjá Hafrannsóknastofnun starfa um 190 manns, stofnunin rekur tvö rannsóknarskip og er með tíu starfsstöðvar á landsvísu, þar á meðal rannsóknarstöð í fiskeldi.

Hafrannsóknarstofnun stendur að margvíslegum rannsóknum á sviði sjávar og ferskvatns og sér ráðuneytinu fyrir vísindaráðgjöf sem byggir á rannsóknum stofnunarinnar í sjó, ferskvatnsvistkerfum og á umhverfinu.

Hafrannsóknastofnun er leiðandi í haf- og ferskvatnsrannsóknum í lögsögu Íslands og á norðurslóðum og veitir ráðgjöf um sjálfbæra nýtungu og vernd umhverfisins með vistfræðilegri nálgun með vöktun sjávar og ferskvatnsvistkerfa.

Höfuðáhersla er lögð á rannsóknir til að efla vísindalega þekkingu á umhverfi og lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni og stuðla í senn að sjálfbærri og arðbærri nýtingu auðlindanna.

Hafrannsóknastofnun nýtur mikillar virðingar í vísindasamfélaginu og er því mikilvægur samstarfsaðili í rannsóknum,  virkur á alþjóðavettvangi með styrka innviði og tækjabúnað af hæstu gæðum. Hafrannsóknastofnun er eftirsóknarverður vinnustaður með framsækinni mannauðsstefnu sem stuðlar að samkeppnishæfni stofnunarinnar og markvissri jafnréttisstefnu.

Um Veiðiklúbbinn Streng

Veiðiklúbburinn Strengur, sem nýverið fagnaði 60 ára afmæli sínu, hefur umsjón með nokkrum helstu laxveiðiám Íslands, þar á meðal Hofsá og Selá á Vopnafirði.

Um INEOS

INEOS er alþjóðlegur framleiðandi jarðolíuefna, sérhæfðrar efnavöru og vörum framleiddum úr olíu.

Innan samstæðunnar eru 34 fyrirtæki, hvert með sögu úr efnaiðnaði. Umsvif INEOS ná til 183 starfsstöðva í 26 löndum víðsvegar um heiminn.

Með framleiðslu sinni leggur INEOS af mörkum mikilvægt framlag við lífsbjörg, bætt heilsufar og bætt lífskjör fólks um allan heim.

Dótturfélögin framleiða hráefni sem eru nauðsynleg við framleiðslu á mjög fjölbreyttum varningi, frá málningarvörum til plastefna, textílvarnings til tæknibúnaðar, lyfja til farsíma – efni sem framleidd eru hjá INEOS eiga snertiflöt við alla þætti nútímalifnaðarhátta.

Fækkunin – Talnaleikfimi

 • Samkvæmt tölum Atlantic Salmon Trust hefur afkoma villtra laxa í hafi dregist saman um 70% síðasta aldarfjórðung.
 • Í Skotlandi hefur sú tala laxa sem búist er við að snúi aftur í árnar eftir göngu í hafi fallið skarpt, um meira en 50%, síðustu tvo áratugi.
 • Núna veiðast 50.000 laxar í Bretlandi – sem er slakasta veiði sem um getur til þessa og brot af þeim 600-800 þúsund löxum sem veiddust árlega þar til á sjöunda áratugnum.
 • Bara 3-5% af laxi sem klekst í breskum ám snýr aftur til að fjölga sér, samanborið við 25% fyrir tveimur áratugum.
 • Í Noregi er fjöldinn sem snýr aftur úr hafi innan við 50% af þeim fjölda sem mældist fyrir þrjátíu árum síðan.
 • Í Bandaríkjunum hefur áætlaður fjöldi laxa sem gengur aftur upp í ár dregist saman um 17% bara síðustu tvö ár.
 • Í lok árs 2018, hætti síðasta skoska netaveiðistöð villtra laxa vegna þess hve fáa fiska var að hafa.
 • Villti Atlantshafslaxastofninn hefur nú þegar horfið að fullu úr að minnsta kosti 309 árkerfum í Evrópu og Norður-Ameríku.