Sérfræðingar lofa aðgerðum

FRÉTTATILKYNNING, 27. janúar 2020.

TÍMINN ER SENN Á ÞROTUM: LEIÐANDI SÉRFRÆÐINGAR LOFA AÐGERÐUM FYRIR ATLANTSHAFSLAXINN ÁÐUR EN ÞAÐ VERÐUR OF SEINT.

  • Stofn villta Norður-Atlantshafslaxins, nú flokkaður sem tegund í hættu, hefur fallið um 70% síðasta aldarfjórðung og er minni en hann hefur áður mælst[1].
  • Leiðandi sérfræðingar í heiminum hittust í Reykjavík til að flýta rannsóknum á því hvernig vernda ber þessa sérstæðu tegund.
  • Hvatamaður ráðstefnunnar er Sir Jim Ratcliffe, sem hefur verið ötull stuðningsmaður Atlantshafslaxins, um leið og aukin teikn eru um hrun villtra laxastofna.
  • „Samstarf af svo miklum gæðum og umfangi er ótrúlega mikilvægt til að tryggja að villti Atlantshafslaxinn komist af. Heimurinn horfir nú til Íslands og Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi sem uppsprettu gagna við upplýsta ákvarðanatöku í öðrum löndum,“ segir Dr. Peter Williams, tæknistjóri INEOS Group

___________________________________________________________________________

Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi, sem komið var á fót af Sir Jim Ratcliffe, stofnanda og formanni INEOS, fékk leiðandi sérfræðinga á heimsvísu til umræðna á ráðstefnu um framtíð Atlantshafslaxins.

Á ráðstefnunni var lofað að flýta rannsóknum sem aukið gætu skilning á þeim ógnum sem að tegundinni steðja og vinna hratt að gerð nýrra leiða til verndar og til að snúa við hnignuninni. Leiðandi sérfræðingar á sínu sviði – stærðfræðingar, greiningarfræðingar, vistfræðingar, líffræðingar, grasafræðingar – hvaðanæva að úr heiminum taka höndum saman í einu umfangsmesta framtaksverkefni heims til verndunar laxins. Átakið leiða í sameiningu Hafrannsóknastofnunin á Íslandi (Hafró) og Imperial College í Bretlandi. Niðurstöðum verður deilt meðal vísindamanna til stuðnings á öðrum svæðum.

„Norður-Atlantshafslaxinn er lykiltegund í vistkerfinu. Einfaldari vistkerfi áa á Íslandi veita kjöraðstæður til rannsókna. Breiddargráða þeirra þýðir einnig að næmni fyrir áhrifum loftslagsbreytinga er mögulega meiri en í öðrum heimshlutum.“

Prófessor Guy Woodward, frá Imperial College í London

Dr Rasmus Lauridsen, yfirmaður fiskveiðirannsókna hjá Game & Wildlife Trust í Bretlandi, varpaði ljósi á ný gögn sem fengin eru með nýjustu merkingaraðferðum og genakortlagningu. Þessum hátæknigögnum er safnað á Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi til að greina breytingar á fæðisöflun, vexti og göngu, sem gætu hjálpað við lausn gátunnar um hnignun laxins.

Dr James Rosindell, sérfræðingur í megindlegri líffræði við Imperial College í London, kynnti notkun forspárlíkana með nýjum og eldri gögnum frá áratugaeftirliti Hafrannsóknastofnunar á Norðausturlandi. Eftir því sem verkefninu vindur fram munu ný líkön spá af mikilli nákvæmni fyrir um breytingar á laxastofnum, sem er mikilvægt baráttunni gegn hnignun laxins.

Í aðgerðum Verndarsvæðisins er lögð áhersla á varðveita vistkerfi bæði lands og ánna á Norðurausturlandi og styðja með því við einn af síðustu griðastöðum heims þar sem laxinn dafnar enn. Í ánum sem um ræðir er að finna einhver einföldustu vistkerfi sinnar tegundar. Með rannsóknarniðurstöðum úr þessum vistkerfum eru mestar líkur á að hægt sé að greina ástæður hnignunar laxins og finna leiðir til að snúa þróuninni við.

Aðgerðir Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi byggja á þremur þáttum; árvissum grefti hrogna laxa úr ánum sjálfum, byggingu laxastiga til að opna laxinum ný uppvaxtarsvæði, og á uppgræðslu og skógrækt til að auðga fæðuúrval fisksins í ánum. Allar miða þessar leiðir að því að styðja við fiskinn í ánum og auka lífslíkur hans. Um er að ræða raunhæfar stuðningsaðgerðir sem unnar eru í nánu samstarfi við bændur á svæðinu og nærsamfélagið.

Þetta mikilvæga verndar- og rannsóknarstarf er fjármagnað beint af Sir Jim Ratcliffe auk þess sem allur hagnaður af starfsemi Veiðiklúbbsins Strengs og af eignaumsýslu á Íslandi rennur til verndarstarfsins. Með tímanum á Verndarsvæðið að verða sjálfbært sem tryggir framgang verndarstarfsins um langa framtíð.

„Heimurinn horfir til Íslands og Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi sem uppsprettu þekkingar sem styðji við náttúruvernd í öðrum löndum. Rannsóknaráætlunin er heildræn og nær til ánna, lands, vatnasvæða og sjávar. Undir þessa nálgun er skotið stoðum með hagnýtingu nýjustu vísinda. Þessi ráðstefna á Íslandi, sem við vonumst til að halda árlega, kemur til með að skipta mjög miklu máli fyrir afkomu Atlantshafslaxins.“

Peter Williams, tæknistjóri INEOS Group

„Atlantshafslaxinn er í hættu. Markmið okkar með því að leiða saman helstu sérfræðinga heims er að snúa við þessari hnignun laxins. Verndunarstarf okkar með Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi er liður í stuðningi við laxinn á því svæði, en mun meira þarf til að koma. Við vonumst líka eftir stuðningi stjórnvalda í þessari viðleitni.“

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs

Veiddum laxi er sleppt aftur í ám Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi.

[1] INTERNATIONAL COUNCIL FOR THE EXPLORATION OF THE SEA WORKING GROUP ON NORTH ATLANTIC SALMON 2019 – www.ices.dk/community/groups/Pages/WGNAS.aspx

Meðal leiðandi sérfræðinga sem voru með erindi á ráðstefnunni voru: Prófessor Guy Woodward frá Imperial College London, Dr Guðni Guðbergsson deildarstjóri sjávar- og ferskvatnsrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun, Dr Colin Bull frá The Missing Salmon Alliance og Dr Nikolai Friberg frá Norsku ferskvatnsrannsóknamiðstöðinni. Auk þess héldu erindi prófessor Phil McGinnity, frá Environmental Research Institute við Háskólann í Cork á Írlandi, Dr Rasmus Lauridsen, yfirmaður fiskveiðirannsókna hjá Game & Wildlife Trust í Bretlandi og Dr James Rosindell, sérfræðingur í megindlegri líffræði við Imperial College. Smellið hér fyrir frekari upplýsingar.