Saga Strengs

Veiðiklúbburinn Strengur og Veiðifélag Selár

— Áratugasaga endurbóta og uppbyggingar

Veiðiklúbburinn Strengur ehf. var stofnaður í Reykjavík þann 29. október árið 1959. Helstu hvatamenn voru Helgi Hjálmarsson, Haraldur Haraldsson og Vífill Oddsson. Fljótlega bættust fleiri í hópinn, svo sem Rafn Hafnfjörð, Garðar H. Svavarsson, Hörður Óskarsson, Magnús Jóhannsson og Guðmundur Sigtryggsson og var megintilgangur félagsins að finna og útvega aðstandendum þess heppilega aðstöðu til veiða. Árið 1962 fóru nokkrir félagsmenn austur á land til að kynna sér valkosti sem kæmu til greina fyrir aðstöðu félagsins. Meðal veiðisvæða var Selá sem heillaði þótt ekkert yrði af ákvörðunum af hálfu félagsins að sinni. Það var ekki fyrr en sjö árum síðar sem bar til tíðinda þegar jörðin Hvammsgerði í Vopnafirði var auglýst til sölu árið 1969. Fjárhagur félagsins hafði þá braggast nokkuð frá stofnun tíu árum áður, nýr laxastigi kominn ofan Selárfoss og lax farinn að veiðast þar fyrir ofan. Hvammsgerði var því keypt og húsnæðinu á jörðinni breytt í veiðihús. Í kjölfarið var Selá tekin á leigu og hefur Strengur allar götur síðan annast sölu veiðileyfa í ána.

Margheiðraður um heim allan
Orri Vigfússon kom fyrst til veiða í Selá í júní árið 1977 og fljótlega eftir það gerðist hann félagsmaður í Streng. Orra fylgdu miklar breytingar. Hann var um þær mundir að hefja mikla baráttu fyrir verndun villtra laxastofna í Atlantshafi undir merkjum Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF), þar sem hann var formaður og formaður Strengs var hann meira og minna í rúma tvo áratugi. Undir hans stjórn dafnaði mjög hagur Strengs vegna stóraukinnar veltu af sölu veiðileyfa í Selá, ekki síst til auðugra erlendra veiðimanna sem margir hverjir voru dyggir bakhjarlar Orra og NASF við verndun villta laxastofnsins í Norður-Atlantshafi. Með Orra sveipaðist Selá ævintýralegri dulúð og hafa æ síðan færri komist að til veiða en vildu.

Orri var afreksmaður á sínu sviði og er af mörgum minnst sem mikils náttúruverndarsinna sem hljóta hefði átt Nóbelsverðlaun fyrir starf sitt enda var hann heiðraður af umhverfissamtökum og leiðtogum um allan heim. Þeirra á meðal var Karl Bretaprins sem heiðraði Orra fyrir störf sín árið 1994 og tíu árum síðar veitti tímaritið Time Orra titilinn „European Hero“ og sagði hann í hópi 100 áhrifamestu aðila heims. Þeir virðingarvottar sem Orra hlotnuðust um ævina eru fleiri en hægt er að telja. Orri lést 1. júní 2017, 74 ára að aldri.

Veiðifélag stofnað um Selá
Árið 1970 var stofnað veiðifélag um starfsemi Selár og var Þorsteinn Þorgeirsson, þáverandi bóndi á Ytri Nýp í Vopnafirði kjörinn formaður. Með honum í stjórn voru kjörnir Vífill Oddsson verkfræðingur og Sigurjón Friðriksson bóndi í Ytri Hlíð. Stóð stjórnin óbreytt allt þar til Helgi tók við formennsku af Þorsteini föður sínum árið 1996. Helgi gegndi formennsku til 2005 er Emil Sigurjónsson tók við formennsku. Formennsku gegnir nú Guðmundur Wiium Stefánsson, bóndi á Fremra Nýpi.

Helstu verkefni veiðifélagsins fyrstu árin fólust í nauðsynlegri vegagerð til að bæta aðgengi að veiðistöðum og brúargerð yfir Almenningsá, en vegir sem lagðir hafa verið eru forsenda þess aðgengis sem þarf þar við núverandi uppbyggingarstarf á borð við endurheimt gróðurfars, gerð nýrra laxastiga og hrognagraftar upp með ám. Einnig hófust þá seiðasleppingar í því skyni að rækta upp alla ána, endurgerð laxastiga og fleira sem fylgir rekstri laxveiðiáa. Á þessum árum annaðist veiðifélagið allan rekstur Selár en Strengur sölu veiðileyfa f.h. veiðifélagsins ásamt því að sjá um rekstur veiðihúsanna. Á áttunda áratugnum keypti Veiðifélag Selár veiðihúsið í Hvammsgerði af Streng og annaðist félagið rekstur þess til 2011 er jörðin var seld ungum hjónum sem hófu búskap og rekstur á jörðinni á ný.

Með árunum hefur Strengur fest kaup á fleiri jörðum í Vopnafirði þar sem aðstaða hefur byggst upp vegna starfseminnar. Strengur hefur haft Hofsá í Vopnafirði á leigu frá 2009 og árið 2017 var undirritaður samningur um kaup Jim Ratcliffe á meirihluta hlutafjár í Streng til að standa áfram vörð um áframhaldandi hófsama veiði og góða umgengni við ána ásamt því að styrkja enn frekar hrygningarstofna ánna í samræmi við grunngildi Strengs frá upphafi.

Upplýsingaskjal sem afhent var í tengslum við kynningu á uppbyggingar- og verndarstarfi tengdu villtum laxi í ám á Norðausturlandi 23. september 2019.