Kynning fyrir fjölmiðla á Vopnafirði

— Upplýsingaskjal, 23. september 2019

Segja má að Verndaráætlun áa á Norðausturlandi byggi á áratugalangri sögu verndarstarfs og þeim áherslum sem hafðar hafa verið í heiðri í Veiðiklúbbnum Streng, sem stofnaður var fyrir 60 árum síðan. Stofni Norður-Atlantshafslaxins er ógnað, en tegundinni hefur hnignað hvarvetna á norðurhveli. Í verndaráætluninni er áhersla lögð að varðveislu lands og vistkerfis áa á Norðausturlandi og að viðhalda uppeldisstöðvum Norður-Atlantshafslaxins á svæðinu.

Sir Jim Ratcliffe hefur í mörg ár stundað stangveiði hér á landi og eftir samræður við aðra stangveiðimenn og forsvarsmenn Veiðiklúbbsins Strengs rann upp fyrir honum að markvissra aðgerða væri þörf.

„Ef við grípum ekki til aðgerða núna, þá er hættan sú að við missum tegundina. Það viljum við ekki.“

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs

Verndaráætlun áa á Norðausturlandi er metnaðarfull að umfangi. Á næstu þrem til fjórum árum stendur til umtalsverð fjárfesting tengd rannsóknum, uppbyggingu og vernd villta laxastofnsins. Allar fjárfestingar Sir Jim Ratcliffe á Íslandi eru í þágu, og til áframhalds, verndarstarfsins, en utan um vinnu í tengslum við það heldur Veiðiklúbburinn Strengur.

„Um er að ræða verkefni sem við tökum mjög alvarlega og við gætum þess að þeim fjármunum sé vel varið sem í það fara. Á endanum viljum við tryggja að verkefnið verði sjálfbært og í stöðu til að halda áfram um ókomna tíð, til góða fyrir umhverfi ánna á Norðausturlandi og laxinn sjálfan.“

Peter S. Williams, tæknistjóri INEOS Group

Rannsóknaráætlunin sem kynnt var í [ágúst 2019] er hluti af verndaráætluninni. Fyrir rannsóknunum fara Hafrannsóknastofnun og Imperial College London, en þær snúast meðal annars um að upplýsa um ástæður hnignunar Norður-Atlantshafslaxins. Hluti rannsóknanna lýtur að því að kortleggja lífsferil laxins og greina flöskuhálsa sem koma niður á viðgangi hans, hvort sem þeir snúa að umhverfi, fæðuöflun eða öðrum þáttum.

Rannsóknirnar, sem Jim Ratcliffe fjármagnar að fullu, snúa að nýjum þáttum í vistfræði laxfiska og hegðunarmynstri þeirra. Doktorsnemar frá hvorri stofnun framkvæma ítarlegar rannsóknir á núverandi stærð laxastofnsins, genakortlagningu fiskanna, og reyna, með aðstoð hátæknimerkinga, að leiða í ljós tengslin milli umhverfis og hegðunar laxa í ánum og endurkomu þeirra úr hafi.

Á meðal annarra fjárfestinga í verndaráætluninni er bygging laxastiga til að víkka út uppvaxtarsvæði þeirra í ánum og gröftur hrogna úr laxfiskum hverrar ár ofar í ánum, á svæðum þar sem þeir hafa ekki getað gengið áður. Eins er á fyrstu stigum, í samstarfi við Vopnafjarðarhrepp, verkefni tengt uppgræðslu og skógrækt meðfram laxveiðiánum. Else Möller, skógfræðingur og verkefnastjóri á skógræktarsviði Vopnafjarðarhrepps, fer fyrir þeim hluta.

„Þetta er nýtt og spennandi verkefni sem ekki hefur verið reynt áður hér á landi. Hugmyndin er að endurheimta gróðurfar og rækta skóg á svæðunum meðfram ánum. Markmiðið er jarðbætur á svæðum sem orðið hafa fyrir gróðureyðingu, til þess að auka skjól og með tíð og tíma magn lífrænna efna í árnar. Við gerum tilraunir með mismunandi tegundir plantna til þess að finna út hvaða tré ná rótfestu og geta dafnað á svæðinu.“

Else Möller

Um er að ræða mikilvægt starf sem hjálpa á til við að endurbyggja jarðveg og auka lífvirkni í vistkerfinu. Til lengri tíma gæti með þessu verið hægt að auka fæði sem berst ungfiski í ánum. Þessi nálgun, að vernda og endurheimta vistkerfið, byggir á áframhaldandi landbúnaði á svæðinu, að þar haldi bændur áfram hefðbundnum landbúnaði og bæti með því jarðgæði við árnar.

„Samvinna og samstarf við íbúa við árnar skiptir höfuðmáli þegar kemur að því að vinna að markmiðum verkefnisins,“ segir Peter S. Williams.

Bændur eru því með virkum hætti hvattir til að búa áfram á jörðum meðfram ánum og halda áfram landbúnaði sínum og stuðningi við landgæði meðfram ánum, um leið og þeir efla nærsamfélagið með veru sinni.

„Landbúnaður hefur haldið áfram á öllum jörðum sem keyptar hafa verið, og meira að segja tekinn upp aftur á einni jörð þar sem landbúnaður var að leggjast af. Þarna fara hagsmunir saman, því best er fyrir árnar að landið í nærumhverfi þeirra sé ræktað á umhverfisvænan máta, með hefðbundnum landbúnaði. Auk þess að vernda laxinn, styður verndaráætlunina líka við áframhaldandi landbúnað á svæðinu,“ segir Gísli Ásgeirsson.

Þá má benda á, að til viðbótar við beina fjárfestingu af hálfu Sir Jim Ratcliffe, er öllum ágóða frá rekstri Strengs beint aftur í verndar- og uppbyggingarstarfið. Nú þegar eru jákvæð merki um að það starf sem unnið hefur verið hafi góð áhrif á árnar, endurkoma laxa úr hafi hefur aukist og Selá er með veiðihæstu ám landsins.

Viðbótargögn til niðurhals:

 1. Kynningarmyndband – styttri útgáfa
 2. Kynningarmyndband – lengri útgáfa
 3. Viðbótarefni, viðtöl og myndskeið

Kynning á uppbyggingar- og verndarstarfi tengdu villtum laxi í ám á Norðausturlandi 23. september 2019 — Samantekt erinda:

 1. LAXARANNSÓKNIR OG VERNDARSTARFIÐ
  Peter S. Williams, tæknistjóri INEOS Group, kynnir samstarf um rannsóknir á villta laxastofninum sem að standa Imperial College London og Hafrannsóknastofnun. Markmið rannsóknanna er að greina og hrinda í framkvæmd æskilegustu leiðum til að efla vöxt laxastofnsins. Peter Williams fer yfir þá hnignun sem átt hefur sér stað í stofni Norður-Atlantshafslaxins síðustu þrjá áratugi og hvernig þróunin á Íslandi er öðruvísi en í öðrum löndum. Hann fer yfir hvernig Hafrannsóknastofnun og Imperial College skipta með sér verkum, hvernig Hafró annast öflun gagna á vettvangi og sögulegra gagna um ár og úr sjó, á meðan Imperial College leggur til tækni til mælinga, sérþekkingu um ferskvatn, og háþróuð líkön fyrir gena- og gagnagreiningu. Fyrir rannsóknunum fara tveir doktorsnemar, annar með aðsetur á Íslandi og hinn hjá Imperial College London. Heildarfjárfesting í rannsóknaráætlun laxfiska er áætluð um 550 þúsund pund, eða yfir 85 milljónir króna, á næstu þrem til fjórum árum. Greint verður frá niðurstöðum þegar þær liggja fyrir.

  • Um ræðumann:
  Dr. Peter S. Williams hefur verið tæknistjóri INEOS Group síðan í janúar 2017. Áður var hann í ellefu ár aðalframkvæmdastjóri INEOS Technologies, einni deilda INEOS Group. Auk hlutverks síns sem tæknistjóri fyrirtækisins gegnir Peter Williams nú stöðu yfirmanns fjárfestatengsla hjá INEOS Group. Áður en hann gekk til liðs við INEOS árið 2006, starfaði Dr. Williams í tuttugu ár hjá BP Chemicals við margvísleg stjórnunarstörf tengd viðskiptum, tækni og áætlanagerð. Hann er með BA og DPhil gráðu í efnafræði frá University of York og lauk nýdoktorsrannsóknum sínum frá Hahn-Meitner Institut í Berlín.

 2. ENDURHEIMT GRÓÐURFARS
  „Endurheimt lands og nýskógrækt“ er yfirskrift kynningar Else Möller, skógfræðings og verkefnastjóra á skógræktarsviði Vopnafjarðarhrepps. Í erindinu tekst hún á við spurninguna um hvort hægt sé að breyta og bæta landsvæði nærri laxveiðiám með endurheimt gróðurfars og nýskógrækt með það fyrir augum að bæta lífsskilyrði laxa á svæðinu. Um er að ræða nýja nálgun sem ekki hefur verið prófuð áður á Íslandi. Hún bendir á að á meðan til sé nokkur þekking erlendis frá um áhrif eyðingar trjáa meðfram ám, sé litla vitneskju að hafa um áhrif nýskógræktar. Else Möller kynnir aðferðafræðina og byrjunarverkefni sem þegar hefur verið lagt upp með í Vopnafjarðarhreppi. Hún ræðir áskoranir sem verkefnið stendur frammi fyrir á trjálausum svæðum í kaldtempruðu loftslagi og hvernig mæta megi þeim áskorunum. Gangi eftir áætlanir um árangur endurheimtar- og skógræktarverkefnisins getur það mögulega aukið æti laxfiskanna, eftir náttúrulegum leiðum á innlendan og sjálfbæran máta, til þess að efla vöxt stofnsins á eins skjótum tíma og mögulegt er.

  • Um ræðumann:
  Else Möller er skógfræðingur og verkefnastjóri á skógræktarsviði Vopnafjarðarhrepps. Hún var áður verkefnistjóri hjá Austurbrú, sjálfseignarstofnun sem vinnur að hagsmunamálum íbúa á Austurlandi og veitir samræmda og þverfaglega þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu. Else Möller, nam skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, og lauk þar meistaranámi í skógfræði 2013. Meðfram námi vann hún hlutastörf hjá Héraðs- og Austurlandsskógum. Hún er einnig með hjúkrunarréttindi og hefur starfað við hjúkrun á Íslandi og í Danmörku. Þá er hún menntaður kennari, með sérþekkingu á fullorðinsfræðslu.

 3. HROGNAGRÖFTUR
  Hrognagröftur í ám á Norðausturlandi er meginviðfangsefni kynningar Guðna Guðbergssonar, sviðsstjóra deildar ferskvatnsfiska hjá Hafrannsóknastofnun. Hann ræði mikilvægi árlegra mælinga á fiskistofnunum í ánum, hvernig efla megi ár með hrognagrefti, og opinbert regluverk tengt laxi og silungi í ferskvatni. Þá fjallar hann jafnframt um hvaða skilyrði þurfi að vera til staðar áður en kemur að hrognagrefti, og hvernig aðferðafræðin leiðir af sér frekari tækifæri til að rannsaka lífvænleika hrogna yfir í seiði, vöxt fiskanna, og dreifingu þeirra frá hrygningarstöðvum.

  • Um ræðumann:
  Guðni Guðbergsson hefur verið sviðsstjóri deildar ferskvatnsfiska hjá Hafrannsóknastofnun frá 2016. Áður var hann yfir auðlindasviði Veiðimálastofnunar, frá 2009 til 2016, og þar áður deildarstjóri rannsóknadeildar Veiðimálastofnunar frá 2002. Áður hafði hann aflað sér yfirgripsmikillar starfsreynslu hjá Veiðimálastofnun sem rannsóknarmaður, sérfræðingur og verkefnastjóri á árunum 1979 til 2002. Guðni er jafnframt með víðtæka reynslu af alþjóðasamstarfi á sínu sviði. Hann lauk Cand. Scient prófi í vistfræði og líffræði ferskvatnsfiska frá Háskólanum í Ósló í Noregi 1985, en þar áður B.Sc.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 1983. Guðni Guðbergsson er einn af fremstu vísindamönnum Íslands á sviði ferskvatnsrannsókna.