Grófu hrogn í 10 stiga gaddi

Fréttatilkynning, 18. nóvember 2019

Með grefti laxahrogna í 10 stiga gaddi hefur næsta skref verið tekið í umfangsmesta verndarstarfi sem þekkist í þágu Norður-Atlantshafslaxins.

  • Til að fjölga uppvaxtarsvæðum laxins er stefnt að árvissum grefti einnar milljónar hrogna, sem styður við viðhald og bætir afkomulíkur Norður-Atlantshafslaxins.
  • Staðfesta Hafrannsóknarstofnunar og Veiðiklúbbsins Strengs í erfiðum aðstæðum tryggði farsælt upphaf hrognagraftarverkefnisins áður en vetur tók alveg yfir.

__________________________________________________________________

Næsta skref í einu umfangsmesta verndarstarfi sem þekkist í þágu Norður-Atlantshafslaxins var tekið í 10 stiga gaddi í Selá í haust með grefti hrogna á Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi. Undir handleiðslu og með hjálp sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunarinnar stóð Veiðiklúbburinn Strengur að hrognagrefti í ám svæðisins frá seinni hluta október og fram í nóvember.

Stefnt er að árvissum grefti um milljón hrogna fiska úr ánum sem verndaráætlunin nær til í efri lögum ánna þar sem fiskurinn hefur ekki getað gengið áður. Grafin voru á annað hundrað þúsund hrogn að þessu sinni. Verkefnið miðar að því að fjölga uppvaxtar- og fæðuöflunarsvæðum til þess að ýta undir vöxt og auka afkomulíkur fiskanna á fyrri hluta lífsferilsins.

Áætlun um útvíkkun hrygningar- og uppvaxtarsvæða með byggingu nýrra laxastiga miðar einnig áfram og er hluti af langtímaáætlun um stuðning við villta laxastofna á Íslandi. Þau verkefni eru fjármögnuð af Sir Jim Ratcliffe og Streng. Í Miðfjarðará var á síðasta ári lokið við og opnaður stigi. Þar hefur laxinn þegar hafið göngu upp í efri svæði árinnar, sem bæta við um 4,5 kílómetrum af búsvæði fyrir ungfiskinn.

„Hópar frá Hafrannsóknarstofnun og okkur í Selá hafa sýnt í verki stuðning sinn við vernd laxins, með því að vinna að því í tíu stiga gaddi að koma af stað verkefni sem vaxa á í að grafin verði um ein milljón hrogna á ári hverju. Verkefnið er mikilvægur liður í að víkka út hrygningarsvæði Atlantshafslaxins á Norðausturlandi, og um leið hluti af víðtækara verndarstarfi á svæðinu. Með nánu samstarfi við bændur og sveitarfélög svæðisins getum við saman komið á sjálfbæru og umhverfisvænu verndarstarfi, sem eflir bæði náttúrufar og nærsamfélag, um leið og tryggður er sess svæðisins sem heimsklassaáfangastaðar í tengslum við stangveiði.“

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Strengs

Að þessu sinni voru grafin hrogn á völdum stöðum í Kverká, Hvammsá, Miðfjarðará, Vesturdalsá og Selá, auk þess sem tekin voru erfða- og hreistursýni af foreldrafiskum, en þeim var sleppt að lokinni kreistingu. Næsta sumar verða svæðin svo heimsótt aftur og árangur metinn eftir að hrognin klekjast.

Auk beinnar fjárfestingar Jim Ratcliffe er öllum ágóða af starfsemi Strengs beint aftur í Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi. Í verndarstarfinu verður haldið áfram að styðja við árnar og óspillt umhverfi þeirra, efla og auka búsvæði laxins, og starfi með bændum og nærsamfélaginu við vernd svæðisins.